Ári síðar – Druslugangan 2013

21 Júl

Það er ár síðan ég sagði frá. 

Þá átti að ganga Druslugönguna í annað sinn og ég dró andann djúpt, kastaði frá mér skömminni, og sagði öllum heiminum að mér hefði verið nauðgað.

Svo fór allt á hvolf.

Á einu ári hefur lífsins ólgusjór boðið mér upp á allt sem í honum býr. Ég hef upplifað brjálæða hamingjudaga og unnið stórsigra með sjálfri mér en ég hef líka gengið í gegnum áföll sem virðast njóta þess að koma í heimsókn óboðin. Áföllunum hef ég nú getað boðið í köku og kaffi þegar þau mæta – allt vegna þess að ég sagði frá. Þegar ég innbyrði skammarleg leyndarmál var engin kaka í frystinum til að bjóða upp á. Áföllin komu að tómum kofanum og leituðu dyrum og dyngjum að einhverju ætilegu innra með mér. Þau tæmdu mig í hvert sinn. En ekki lengur. Nú get ég tekist á við hlutina eins og manneskja.

Image

Það er þó fleira sem ég áttaði mig á í kjölfar þess að segja frá. Ofbeldið sem ég varð fyrir á sínum tíma drap sjálfsvirðinguna og kallaði fram gegndarlausa löngun í viðurkenningu. Í ást. Ég varð að hitta menn og konur sem væru góð við mig. Og ég leitaði svo tugum skipti í frumskógi fullum af rándýrum. 

Sauðdrukkin stúlka á bar í borg. Undir aldri. Að leita að drætti. Ástarsaga úr raunveruleikanum.

 
Það voru ekki ofbeldismennirnir mínir sem stimpluðu mig sem druslu. Það var fólkið í kringum mig. Dómharðir leikmenn með ferkanntaðar hugmyndir um hvernig konur eiga að haga sér. Það var fólkið sem raunverulega kallaði fram skömm. Það var fólkið sem stimplaði mig druslu og kallaði fram, í verstu lægðunum, hræðslu við að horfast í augu við daginn.   

Versta ofbeldið var ekki nokkurra mínútna nauðgun. Versta ofbeldið var harkaleg gagnrýni á klæðaburð minn, kynhegðun og bólfélagafjölda frá fólki sem ekki vissi. Versta ofbeldið var að fá aldrei rými til að útskýra sig. Rými til að vera ég sjálf. Verstu ofbeldismennirnir var fólkið sem ekki spurði um ástæðu fyrir afleiðingunum. 

Og við höfum öll gerst sek um nákvæmlega þetta ofbeldi. 

Skömmin er versti óvinur okkar. Skömmin keyrir okkur í þrot og kemur í veg fyrir að við náum andanum. Skömmin þaggar niður í okkur. Skömmin viðheldur neikvæðri hegðun og kemur í veg fyrir jákvæða hegðun. Skömmin heftir.

Eftir viku ætla ég að ganga Druslugönguna í þriðja sinn. Ég ætla ekki að ganga gegn nauðgurunum mínum, því þeir eiga ekki skilið að ég veiti þeim svo mikið pláss í mínu lífi. Ég ætla að ganga gegn meðaljónunum. Ég ætla að ganga gegn fólkinu sem sagði að ég væri drusla.

Image

Ég ætla að ganga fyrir fólkið sem ég hef kallað druslur. Ég ætla að ganga fyrir frelsi frá aðdróttunum og ég ætla að ganga fyrir frelsi frá skömm. Frelsi.

Þyrnigerður Láfa

Eitt ráð til að vera betri í bólinu

13 Jún

*Þessi grein birtist fyrst í Stúdentablaðinu*

Kvennatímarit og lífstílsvefrit eru sneisafull af allskonar ráðum til að gera okkur að betra fólki. „200 góð ráð til að komast í kjólinn fyrir mikilvæga prófið þitt í Almennri lögfræði án þess að svelta þig of oft“ og „143 ráð til að vera svolítið skemmtilegri á facebook í prófatörn“ eru dagleg brauð og hafa öll að geyma töfralausnir. Drottning allra lífstílsrita er Cosmopolitan en saga tímaritsins nær aftur til ársins 1886 (I kid you not) og blaðamenn ritsins því orðnir þrautþjálfaðir í að miðla öllum heimsins ráðum til að vera betri kona, sérstaklega í bólinu. Blaðið er gefið út í 65 mismunandi útgáfum, það er prentað á 35 tungumálum og er selt í meira en 100 löndum víðsvegar um heim. Útbreiðsla tímaritsins er að öllum líkindum með þeim bestu í heimi en þrátt fyrir alla „10 ráð til að koma honum á óvart eftir öll þessi ár“ og „15 betri leiðir til að sjúga typpi“ dálkana hafa þau aldrei birt besta ráðið til betri bólfara.

Svo hér er það, besta ráðið til að verða bestur í rúminu – óháð kyni, kynhneigð, kynhvötum, kynorku og kynjaðri fjárlagagerð: Vertu feministi.

Image

Ranghugmyndir kveðnar í kútinn
Að vera feministi í rúminu er ekkert líkt þeim lýsingum sem heyrast á árshátíð karlrembufélagsins. Feministar eru aldrei með sand í píkunni nema þegar þeir hafa lokið ánægjulegum degi á ströndinni við Miðjarðarhafið. Feministar þurfa ekki einn grjótharðan inn í sig svo þeir haldi kjafti. Sumir feministar þurfa stundum einn grjótharðan inn í sig afþví feministar er fólk með langanir sem það vill gjarnan fullnægja, stundum virka grjótharðir best. Og ef vel tekst til er mjög ólíklegt að feministarnir verði hljóðlátir á meðan. Feministar vilja ekki banna kynlíf. Flestir feministar elska kynlíf en líklega muntu hitta fáa feminista sem vilja færa rök með klámi eða mikilli klámnotkun. Það er ekki samasemmerki á milli kláms og kynlífs, svo einfalt er það. Strákar sem eru feministar eru ekki sjálfkrafa hommar, sumir eru það en sumir eru líka í hamingjusömum hjónaböndum með öðrum feministum og stunda kynlíf, sem er engu öðru líkt, í hverri viku. Sumir þeirra eru líka einhleypir, en líkur eru til að þegar þeir sofa hjá feministum séu drættirnir betri, og líklega eru þeir bestu hjásvæfur bæjarins þegar á galeiðuna er komið.

Að ríða eins og sannur feministi
Hvað þýðir það samt að vera feministi í rúminu, og af hverju fullyrði ég að það sé betra?
Feministar gera sér grein fyrir fyrirfram ákveðnum kynhlutverkum og brjóta þau markvisst á bak aftur. Feministar vita að langanir einstaklinga passa ólíklega inn í fyrirfram-mótaðar hugmyndir Cosmo um það hvernig strákar eiga að haga sér og hvernig stelpur eiga að haga sér. Það er lykilatriði í feminískum ríðingum að hætta að vera lítil og kurteis í bólinu afþví klámið sagði þér að taka við hverju sem er og fíla allt í botn. Stelpurnar segja hverjum þær vilja ríða og hvernig án þess að draga undan og strákarnir senda dóminant-frekjunni sem þeim er boðuð í kláminu fingurinn og njóta þess að eiga bólfélaga sem tekur virkan þátt í rúminu án þess að segja „já, mér er bara alveg sama“. Feministum er ekki sama.

Image

Allt er leyfilegt í ástum og ríði

Feministar vita að samfélagið elskar að fylla okkur skömm. Konur skulu skammast sín fyrir að vera ekki nógu villtar í rúminu og þær fá sannarlega að skammast sín fyrir að vera of villtar. En í kynlífi feminista má allt. Eina skilyrðið er að alla aðila langi til að framkvæma allt það dónalega sem lagt er til og að kynlífið sé á jafningjagrundvelli. Feministar spyrja fyrst og framkvæma svo. Feministar verða líka síður fyrir vonbrigðum þegar þeir komast að því að sumar stellingarnar á KamaSutra-síðu bleikt.is eru nærri ómögulegar. Sumir strákar eru nefnilega með of lítið typpi fyrir reversed cowgirl. Það er ekkert til að skammast sín fyrir. Feministar setja ekki óeðlilegar útlitskröfur og það er meðal annars vegna þess sem það er best að sofa hjá þeim.

Að vera feministi er betra fyrir láfuna, liminn og lífið. Prófaðu bara

Toj Toj
Þyrnigerður Láfa

Fuglinn Fönix rís

10 Jún

Ég er komin aftur. Eftir margra mánaða fjarveru.
Þannig er mál með vexti að ég hef verið lasin og það í töluverðan tíma.
Ég fékk krabbamein sísvona –  eins og ekkert væri sjálfsagðara, kornung konan. Það er ekki beint minn stíll að detta í einhverja dramatík og í takt við það urðu veikindin ekki með dramatískasta hætti en þau drógu samt úr mér mátt.
Ég hef alltaf verið kynferðislega aktív, brjáluð á köflum, og hélt að kynhvötin væri eins og matarlystin – þ.e. sama hversu lasin ég yrði myndi hún aldrei láta í minni pokann. Ég var svo sannfærð um að líkami minn myndi gera þessum frumhvötum hátt undir höfði við hvaða aðstæður sem er að ég efaðist ekki í eina sekúndu um að ég fengi að ríða 8 sinnum í viku til eilífðarnóns. Mér datt ekki í hug að stærsta kynfærið, heilinn, myndi bregðast mér og það með líka svona afgerandi hætti.

Image

Það kom á óvart að þó líkaminn minn væri fær um að stunda kynlíf þá sagði hugurinn nei. Ég var svo upptekin af því að líkami minn væri að bregðast mér að ég gat ekki með nokkru móti stýrt kynhvötinni eins og ég hefði viljað. Það örlaði á henni, þegar ég gleymdi mér, en þau augnablik voru of fá. 
Þegar ég kom mér í stellingar og fækkaði fötum heltóku mig áhyggjur af því að líkami minn myndi ekki virka, mér þætti kynlífið ekki gott og ég myndi ekki blotna. Ég æjaði og óaði án þess að þurfa þess og lét smávegis þreytu hafa gríðarleg áhrif. Ég kveið fyrir því að stunda kynlíf því ég vissi að þá kæmi kvíðinn upp. Ástandið var vægast sagt ömurlegt.
Áhyggjurnar voru með öllu óþarfar en sama hversu oft, eða sjaldan, ég stundaði vel heppnað kynlíf var ég búin að gleyma því að ég væri fær um að stunda frábært kynlíf þegar næstu ríðingar bönkuðu upp á.

Þessvegna hef ég ekki bloggað síðastliðna mánuði. Það var ekki heiðarlegt að halda úti feminísku kynlífsbloggi þegar kynlífið mitt, og líðan, var í svona mikilli ládeyðu. Ég rembdist eins og rjúpan við staurinn frá hausti en sköpunarkrafturinn var enginn. Ég bið ykkur að fyrirgefa þetta. 

Image

Veikinda tímabilið hefur gert mér enn frekar grein fyrir því hvað kynlíf er mér nauðsynlegt. Það er nauðsynlegt svo mér líði vel. Svo ég sé afslöppuð, róleg og glöð í bragði. Það færir mér áhyggjuleysi, og jafnvel dass af kæruleysi. Sexý kæruleysi. 

Nú er kæruleysið komið aftur. Ég hef stundað frábært, áhyggjulaust kynlíf síðastliðnar vikur og hækkandi sól veitir mér kraft til að gera það sem mér sýnist. Ég er aftur orðin ósigrandi.

Mikilvægi þess að leita sér aðstoðar ef kynlífið er ekki að virka er mér nú ljóst. Þó ég hafi verið heppin, batinn gengið vel og líðanin að skána veit ég að þúsundir þarna úti geta ekki riðið svo vel sé. Andlegi þátturinn, helvítis heilinn, spilar þar stærsta rullu og því hvet ég þau ykkar sem standið í þeim sporum, að horfast í augu við vandann og leita aðstoðar – til dæmis hjá Sóleyju Bender eða Siggu Dögg kynlífsfræðingum og miklum snillingum.

Ég er risin úr öskunni, og hef aldrei verið jafn kinký.

Toj Toj
Láfan ykkar

Uppfinning Þyrnigerðar Láfu

28 jan

Þegar ég var yngri fannst mér góð hugmynd af hafa alla anga úti í leit að hinum fullkomna drætti svo ég skráði mig á einkamál.is. Mér þótti ekki verra að spara smá pening á börum bæjarins og daðra á lousy þriðjudegi við sæta stráka og sætar stelpur á meðan ég maraði í heitu freyðibaði.

Image
Ævintýri mín á internetinu entust skammt því einkamál.is hafði ákaflega fátt fágað fyrir ofurhetjur í boði. Meirihluti mannanna skorti mjög nauðsynlega þætti í félagsfærni og sætu stelpurnar í leit að öðrum stelpum voru færri en ég hefði kosið. Dónaskapurinn sem flæddi þarna misbauð mér (Ég kann því illa að vera heilsað „hæ, fílarðu anal?“  –  sue me) og ég hrökklaðist bara aftur á galeiðuna. Þar þóttu mér a.m.k. gilda ákveðnar reglur í mannlegum samskiptum.

En nú er ég komin aftur á einkamál.is – og það til að höstla einn sérlega sætan.

Hlutverkaleikir eru snilld, svo einfalt er það. Sá vandi hefur þó fylgt leikjunum að þeir þykja á tíðum kjánalegir og vandræðalegir, sérstaklega ef maður tekur ekki þátt af fullri alvöru. Hver kannast ekki við að standa með með tígó í hárinu, í hvítum sokkum og bumbuna úti að þykjast vera 15 ára skólastelpa en vera í huganum að skipuleggja tossalistann og hvenær þarf að sækja börnin á borðtennisæfingu?

Lausnin liggur hinsvegar hjá mér, Þyrnigerði Láfu!
Hlutverkaleikurinn sem ég er að leika þessi misserin er sá allra skemmtilegasti sem ég hef tekið þátt í. Ég valdi eitt viðhengið mitt, það sniðugasta og mest fullnægjandi, og í sitthvoru lagi bjuggum við til aðgang að einkamálum.is. Reglurnar í leiknum voru mjög einfaldar. Við völdum að vera bara við sjálf og það er bannað að ljúga. Í raun þurrkuðum við bara hvort annað úr eigin lífi og byrjuðum upp á nýtt.
Markmiðið var í  upphafi bara að daðra, klæmast og að lokum hittast sem ókunnugt fólk sem – ef allt gengur að óskum – endar á að stunda sjóðheitt kynlíf.
En það hafa miklu fleiri þættir komið inn í þetta. Við erum að kynnast upp á nýtt og betur. Við tölum um langanir og fantasíur sem við höfðum ekki rætt áður, ekki af því við séum á neinn hátt lokuð gagnvart hvoru öðru heldur einfaldlega því umræðan kom aldrei upp áður. Og ég er farin að flissa í tíma og ótíma, spennt að hann skrái sig inn og roðna upp úr öllu valdi þegar hann segir eitthvað sætt. Æðislegt.
Image
Það ríkir að sjálfsögðu mikið traust á milli okkar og við þurfum engar áhyggjur að hafa af því að við förum að spjalla við annað fólk á netinu. Ég er, ólíkt mörgum öðrum, fylgjandi því að deila öllum lykilorðum og öðru slíku með maka svo það þurfi enginn að vera með samviskubit yfir að renna yfir tölvupósthólfið eða sms-in. Það sama gildir í þessum leik. Ég þekki lykilorðið hans og hann mitt og því eru engar áhyggjur. Svo segi ég honum, þ.e. ekki í leiknum heldur utan hans, þegar ég hef fengið skilaboð frá mönnum í gegnum einkamál og í meginatriðum hvað stendur í þeim. Með þeim hætti hverfur allur áhyggjufaktor úr leiknum.

Leikurinn er, í alvöru talað, snilld fyrir fólk sem kann að meta mjög langan forleik og upplifir sig oft í kjánalegum aðstæðum þegar það leikur leiki í búningum með tilbehørÉg þarf svo varla að taka það fram að þið getið líka valið að vera annað fólk á netinu – borið önnur nöfn og haft aðrar langanir.

Ég er að fara að hitta hann í kvöld á einhverjum æðislegum veitingastað. Ég ætla að gera mig sæta og fara úr nærbuxunum. Wish me luck!

 

Toj Toj
Þyrnigerður Láfa

Feminískir jólasveinar

5 Des

Í sendirferð minni fyrir jólasveinana (já, ég þekki þá persónulega, liggaliggalá) fann ég sniðuga playmo poka á 450kr sem innihalda „óvæntan“ playmokall. Pokarnir voru augljóslega annarsvegar fyrir stelpu og hinsvegar strák en við Gáttaþefur vorum einmitt að leita að skógjöf fyrir lítinn strák og litla stelpu.

Image

Fyrst vorum við harðákveðin í að vera ekki kynjuð með því að gefa stelpunni „stelpupokann“. Pokinn innihélt vissulega töff stelpur en fól í sér þá áhættu að innihalda m.a. klappstýru og prinsessu, staðalmyndir sem haldið er að henni á hverjum degi. Í miðju pönkinu gripum við því tvo strákapoka þar til heilagur sannleikurinn rann upp fyrir okkur:
Strákar eru default kynið. Stelpur hafa alla sína skólagöngu þurft að lesa bækur um stráka (Ef frá er talin Pride and Prejudice í menntaskóla) því lesturinn er að mjög miklu leyti miðaður við að fá þá til að hafa áhuga á lestri. Stelpur eru bara lítil prósenta persóna í öllu barnaefni sjónvarpsins og í barnakvikmyndum. Það er átak að finna stelpuplaymo sem er ekki kynjað.

Svo við tókum áhættuna.

Lendingin varð tveir stelpupokar. Strákurinn fær konu í Dirndl-búningi með blómakörfu og stelpan fær dýralækninn. 

Mæli með þessari skógjöf.

 

Toj toj
Þyrnigerður Láfa

Enn ein niðurlægð stelpa

31 Okt

Þessi pistill er innblásinn af frábærum leiðara Ingibjargar Daggar í DV í dag. 

 

Það eru nokkrir mánuðir síðan ég tók eftir myndum á erlendum síðum þar sem fólk lýsti því yfir að það þyrfti feminisma. Markmiðið var einfalt: Að sýna mikilvægi feminismans. En markmiðið vatt fljótt upp á sig og í stað einfaldra skilaboða á blaði hefur herferðinni, sem nú hefur náð til Íslands, tekist hið ótrúlega. Fjöldi fólks kemur út úr skápnum sem feministar og skyndilega er baráttan ekki bara forpokaðramussukvennameðsandíklofinu heldur okkar allra, kvenna og karla. Baráttufólkið hefur andlit og er þverskurður samfélagsins.

Það eru bara druslur sem kyssa stráka á diskótekum

Mörgum hefur verið tíðrætt um fyrirlestur Gail Dines hér á landi þar sem hún fór í stuttu máli yfir þróun kláms og líklega áhrif þess á samfélagið. Umfram annað sveið mig fullyrðing hennar um að rannsóknir bentu til að stelpur sem fengju á sig „druslustimpilinn“ í skóla upplifðu að einhverju leyti sömu einkenni og brotaþolar kynferðisofbeldis, þ.e. kvíða, áfallastreituröskun, skömm og skort á sjálfsvirðingu. Þetta sveið því ég held að þetta sé satt. Það þekkir allt þenkjandi fólk þá staðreynd að körlum er hampað fyrir að hafa sofið hjá mörgum en konur eru lastaðar fyrir það sama. Viðhorfið smitast svo frá foreldrum til barna og ef foreldrarnir taka ekki undir mannvonskuna tryggir nútíma dægurmenning það.
Það voru nokkrir grunnskólar í hverfinu sem ég ólst upp í en samgangur þeirra á milli var ekki mikill. Þrátt fyrir að þekkja ekki jafnöldrur mínar í nágrannaskólunum bárust sögur af sumum þeirra um allt hverfið og öllum var ljóst að þarna riðu auðveldar stelpur um héruð. Ég sjálf gerðist sek um að segja í hneykslunartón „Hún Hildur er búin að eiga fjóra kærasta, bara á hálfu ári!“ eða „Hún leyfði honum meira að segja að káfa innan á bolnum sínum!“. Þetta kann að hljóma saklaust, og svolítið sætt en hafði samt ótrúleg áhrif. Stelpan sem hafði átt fjóra kærasta (eða sú næsta sem hafði átt tíu) hafði auðvitað ekkert gert með strákunum nema að leiðast þegar enginn sá til. Þeir höfðu heldur ekkert gert með henni, en þeir vildu vera stórir strákar og lugu um sturtuferðir, sleik og þeir kræfustu fullyrtu um káf undir teppi. Þessar sögur heyrðust um allt hverfið og stimpill stúlknanna hvarf aldrei að fullu. Þegar skólarnir sameinuðust í einn stóran innan tveggja ára voru hugmyndir allra um umræddar stúlkur fyrirfram mótaðar. Strákarnir vildu notfæra sér hvað þær þóttu auðveldar og stelpurnar fyrirlitu þær. Foreldrar stilltra barna bönnuðu þeim að umgangast druslurnar því þær myndu spilla sakleysi barnanna þeirra. Það var bara tvennt í stöðunni: Að halda haus og gangast við druslutitlinum eða fara undan í flæmingi og gera tilraun til að skipta um skóla. Horfið öll til baka og veltið fyrir ykkur hvort það hafi ekki komið upp svipuð mál í ykkar skóla. Kannski voruð þið druslan?

Niðurlæging eða stríðni?

En niðurlægingin var ekki einskorðuð við druslurnar. Ég var líka niðurlægð eins og margar aðrar stelpur og smátt og smátt gekkst ég frekar við stimpli stúlkunnar sem stóð á sama. Druslunnar. Það kann að hljóma hádramatískt og eflaust munu margir kalla mig klikkaða fyrir að taka þessu á þennan veg en ég vil meina að fyrsta kynbundna ofbeldið sem ég varð fyrir hafi verið eineltistengt. Ég hef alltaf verið sterk og storkað strákunum í öllu, aðallega með kjaftinum. Þetta leiddi til þess að þegar ég hafði staðið of mikið uppi í hárinu á þeim fannst þeim nóg komið, öllum í árgangnum. Eineltið var fyrst bara andlegt og ég flokka það sem almenna stríðni, ókynbundna. Þegar það varð svo líkamlegt var það alltaf kynbundið, þ.e. þeir hefðu aldrei beitt aðra stráka samskonar líkamlegu ofbeldi og þeir beittu mig. Þann dag, sem er mér efst í huga, var snjór yfir öllu. Snjóstríð skólans voru venjulega einskorðuð við snjóboltakast en ég kom út í frímínútur og varð strax vör við að eitthvað gekk á. Þeir stóðu, líklega 20 í hóp, og pískruðu og horfðu til mín. Enginn þeirra var með snjóbolta við hönd. Ég byrjaði að ganga í burtu án þess að mikið bæri á, en það var bara of seint. Þegar ég heyrði þá koma aftan að mér með öskrum fór ég að hlaupa. Áður en ég vissi af var ég skriðtækluð og ég datt. Þeir hópuðust allir í kringum mig og hrúguðu snjó yfir mig, eins miklum og mögulegt var. Fyrst var það einskorðað við andlitið svo ég sá ekki neitt. En svo breyttist ofbeldið. Þeir renndu niður úlpunni minni og drógu af mér snjóbuxurnar. Þeir reyndu að troða snjónum inn undir bolinn minn og inn á píkuna. Þeir hrúguðu snjó utan á klofið á mér með miklu afli. Þegar fúttið var horfið gat ég loks staðið upp. Ég hló að þeim, lét sem mér þætti þetta sniðugt og fyndið en fór svo aftur inn í skóla að gráta. Ég var ömurlega niðurlægð, strákarnir höfðu snert staði á líkamanum á mér sem höfðu ekki verið snertir áður og ég var bæði köld og blaut. Þessi pistill á samt ekki að vera um mig og mínar raunir. Þetta atvik er svo smávægilegt miðað við heildarmyndina.

Markviss kennsla í niðurlægingu

Atvikið hér að ofan rifjaðist upp fyrir mér þegar ég sá þetta myndband:

 

Þegar venjulegu fólki er kennt að niðurlægja annað fólk er áherslan alltaf á eigin ánægju af því, ekki á það markmið að valda hinum óumdeildum skaða. Það eru ekki allir karlmenn sem niðurlægja konur skrímsli en það er búið að kenna þeim að loka augunum fyrir sársauka annarra. Þeir sjá svo mikið magn af niðurlægðum en hamingjusömum konum í dægurmenningunni að þeir eru blindir á raunverulegan sársauka þeirra sem þeir meiða. Tónlistarmyndbönd sýna karla í sömu stöðu og í klámi. Þeir eru stöðugir og sterkir, miðja hlutanna, en konur eru viðföng og dilla sér í kringum þá. Þær eru fiðrildi sem auðvelt er að kremja. Þær eru til staðar svo karlarnir líti betur út, því það er flott að vera með stelpu á arminum. Hetjur barnanna okkar sýna þeim þessa skýru hugmynd um hvernig kynin eiga að skipta með sér verkum og óumflýjanlega hegða þau sér í samræmi við það. Átta ára barn er ekki í neinni stöðu til að draga það sem það sér í efa, það meðtekur, tileinkar sér og reynir að skilja hegðunina með vondum árangri. Átta ára barn hefur ekki tök á gagnrýninni hugsun, sama hversu vel það er alið upp. Þessvegna þurfum við feminisma.

Ég þarf feminisma því…

Ég þarf feminisma því ömurlegum og niðurlægjandi staðalmyndum er haldið að börnunum mínum. Ég þarf feminisma því strákarnir í skólanum hefðu þá frekar tekið á mér sem „einni af þeim“, því það hefði ekki verið jafn ömurlegt. Ég þarf feminisma því konur skila sér í meiri mæli í framhaldsnám, en karlar eru samt taldir hæfari og klárari. Ég þarf feminisma því klám er kapítalískt ofbeldi. Ég þarf feminisma því systir mín fordæmdi stelpu sem hafði kysst nokkra stráka og mamma mín tók undir með henni. Ég þarf feminisma því pabbi trúir því ekki að konur séu sýndar sem veikara kynið í auglýsingum. Ég þarf feminisma því stundum fæ ég samviskubit þegar ég segi nei. Ég þarf feminisma því litla stelpan mín segist vera svo fegin að vera mjó, hún er sex ára. Ég þarf feminisma því bróðir hennar finnst að hún eigi frekar að taka til. Ég þarf feminisma því mér var nauðgað. Ég þarf feminisma því fólk heldur að heimavinnandi húsmæður kunni ekkert annað. Ég þarf feminisma því ég vil að strákar geti grátið. Ég þarf feminisma því ég vil að stelpur þori að tala. Ég þarf feminisma til að vera frjáls.

 

Þyrnigerður Láfa

 

 

Grænir titrarar

23 Okt

Í dag birtist frétt á vef Morgunblaðsins um Clueless leikkonuna Aliciu Silverstone. Fréttin vakti eftirtekt mína sérstaklega því í henni er talað um umhverfisvænt hjálpartæki sem koma að góðum notum þegar stundað er grænt kynlíf sem ég hef fjallað um hér og hér.
Fréttin sagði frá því að Alicia Silverstone hefði mælt með grænum hjálpartækjum á twitter síðu sinni sem nefnast Leaf og sagði þar orðrétt:
Dömur! Notið þessi óþekku (og ótrúlega umhverfisvænu) tól einar eða með félaga“ 

Image

Þau eru falleg og þau eru vissulega græn, en eru þau umhverfisvæn? Nei ég fæ ekki séð að svo sé
Leikföngin eru úr sílikoni. Þau eru með endurhlaðanlegum rafhlöðum sem vissulega kemur í veg fyrir endalaus rafhlöðuskipti en framleiðsla á rafhlöðum er gríðarlega óumhverfisvæn auk þess sem rafmagn þarf til að endurhlaða tækið.
Það sem framleiðslufyrirtækið tekur í raun fram að sé „umhverfisvænast“ þegar kemur að tækinu er að umbúðirnar utan um titrarana eru endurnýtanlegir pappakassar og svo fylgir taupoki með.

 

Þetta þýðir þó ekki að leikföngin séu ekki skemmtileg og veiti mikinn unað. Þau eru bara ekki umhverfisvæn. Ekki láta plata ykkur af markaðinum og lygum hans.

 

Toj Toj
Þyrnigerður Láfa

Fylgja

Get every new post delivered to your Inbox.